„Kosningaspá“ Google?
Hvað segir leitartölfræðin?

Leitaráhugi á Google eftir stjórnmálaflokkum

Hér á eftir fer létt House Of Cards innblásin Google Trends æfing þar sem skoðaður er leitaráhugi eftir þeim stjórnmálaflokkum sem bjóða fram í kosningum til alþingis 2017. Flokkum er raðað í röð eftir úrslitum síðustu kosninga. Línuritin hér að neðan sýna þróun leita á Google eftir hverjum flokki fyrir sig milli tímabila en eru á engan hátt samanburður milli flokka. Það er óljóst hvaða ályktanir er hægt að draga af þessum mælingum en það er gaman að rýna í, spá og spekúlera.  Tímabilið nær 5 ár aftur í tímann og til nýjustu gagna sem aðgengileg eru. Þessi æfing er til gamans gerð og með fyrirvara um villur sem kunna að leynast í gögnum frá Google. 

Tölur uppfærast sjálfkrafa með tíma og er færslan skrifuð út frá stöðunni eins og hún var þegar greinin var síðast uppfærð þann 27/10/2017 kl:11:00.

Þegar tölurnar eru skoðaðar í samanburði við síðustu kosningar eru nokkrir punktar sem standa upp úr þegar þetta er skrifað.   

  • Sjálfstæðisflokkurinn hefur náð um 50-70% af þeim áhuga sem flokkurinn náði hæst í aðdraganda síðustu kosninga. Á sama tímapunkti hafa Vinstri græn náð rúmlega 50% af því þeim áhuga sem flokkurinn náði 2016. Samfylkingin hefur nú þegar farið langt með að ná sama áhuga og fyrir síðustu kosningar og má ætla að leitaráhugi fari verulega hærra en 2016. Viðreisn, Píratar, Björt framtíð og Framsóknarflokkur eru merkjanlega styttra á veg komin. Flokkur fólksins virðist vekja svipaðan leitaráhuga og fyrir síðustu kosningar. Miðflokkurinn er nýstofnaður og er erfitt að meta stöðu flokksins út frá leitaráhuga.
  • Þegar skoðaðar eru leitir eftir leitarorðinu KOSNINGAR þá virðist áhugi fyrir því orði ekki vera kominn eins langt og á sama tíma fyrir síðustu kosningar en þó vantar einhver gögn til þess að geta sagt það með vissu. Leit eftir orðinu hefur nú náð rúmlega 25% af þeim áhuga sem birtist 2016.
  • Það er áhugavert að áhugi fyrir kosningum nær yfir mjög stutt tímabil og eru lang stærstur hluti leita gerður síðustu dagana fyrir kosningar. Kjósendur virðast flestir fara seint af stað þegar kemur að því að afla sér upplýsinga um flokkana og mögulega eru margir sem taka endanlega ákvörðun í kringum kjördag.
  • Þetta gæti mögulega sagt okkur að mikil áhersla ætti að vera á auglýsingabirtingar og önnur samskipti við kjósendur síðustu dagana og klukkustundirnar fyrir kjördag. Ef fylgni er á milli leitaráhuga og fylgis flokkanna má ætla að mikilvægi auglýsinga með það að markmiði að auka vitund sé verulegt. Með auknu auglýsingaáreiti mætti þá ýta undir leitaráhuga sem mögulega gæti skilað sér í auknu fylgi (ef sterk fylgni er á milli).

Það er erfitt að meta forspárgildi tölfræðinnar er hún virðist nokkuð í takt við skoðanakannanir undanfarið. Ef leitaráhugi hefur forspárgildi þá mætti ætla að Sjálfstæðisflokkurinn gæti farið nálægt því að ná sama árangri og 2016. Vinstri græn virðast mögulega vera á svipuðum stað og 2016 og hafa náð um 50% af þeim leitaráhuga sem sást 2016. Eftir leitartölfræðinni virðist áhugi á Samfylkingu hafa aukist töluvert og gæti flokkurinn bætt sig verulega frá síðustu kosningum. Viðreisn, Píratar, Framsóknarflokkurinn og Björt framtíð gætu hinsvegar tapað nokkru fylgi. Flokkur fólksins gæti endað á svipuðum stað og í síðustu kosningum. Miðflokkurinn er svo óskrifað blað þar sem samanburður er ekki til staðar.

Tölur munu uppfærast fram yfir kosningar og því verður gaman að nota refresh takkann og fylgjast með þróun mála þar til talið hefur verið úr öllum kössum. (Athugið að gögn og myndir gætu verið lengi að birtast vegna tenginga við Google).

Gleðilegar kosningar…allir út að kjósa!

Sjálfstæðisflokkurinn

Vinstir græn

Píratar

Framsóknarflokkurinn

Viðreisn

Björt framtíð

Samfylkingin

Flokkur fólksins

Miðflokkurinn

Leit eftir leitarorðinu KOSNINGAR