Snjalltækjavæðing í Vefsíðugerð

Skiptir máli hvernig vefsíður birtast á snjalltækjum?

Google segir já!

Í lok febrúar sendi Google frá sér eftirfarandi tilkynningu

„Starting April 21, we will be expanding our use of mobile-friendliness as a ranking signal. This change will affect mobile searches in all languages worldwide and will have a significant impact in our search results. Consequently, users will find it easier to get relevant, high quality search results that are optimized for their devices.“

Tilkynninguna má lesa í heild sinni hér.

Með þessu eru Google að tilkynna að vefsíður sem ekki aðlagast að skjástærð notenda komi til með að finna fyrir því í formi lægri stöðu í leitarniðurstöðum á Google, sérstaklega meðal þeirra notenda sem leita í snjallsímum og á spjaldtölvum.

Lækkandi staða í leitarniðurstöðum getur haft töluverð áhrif á fyrirtæki sem stóla á vefumferð í gegnum Google leitarvélina, sérstaklega þar sem æ fleiri nota síma og spjaldtölvur til þess að leita og tengjast internetinu.

Úttekt okkar hjá Hype á vefumferð um vefsíður nokkurra af okkar stærstu viðskiptavinum sýnir að 15% – 40% notenda nota snjalltæki til þess að tengjast netinu, einnig sáum við að þetta hlutfall er mun hærra en fyrir ári síðan. Sem dæmi má nefna að á fyrstu tveimur mánuðum ársins 2015 kom um 24% heimsókna á www.hype.is í gegnum snjalltæki, á sama tímabili á árinu 2014 var hlutfallið um 11%. Breytingin er því hröð og pressan á þá sem ekki hafa brugðist við er að aukast.

Hvernig veit ég hvort síðan mín er snjalltækjavæn (e. mobile friendly)?

Er vefsíðan tengd Google Webmaster Tools?  Ef svo er og síðan er ekki snjalltækjavæn þá ættir þú að vera búin/n að fá tölvupóst (mynd 1) þess efnis frá Google og um hvað megi gera til að bregðast við.

Ef síðan er ekki tengd Google Webmaster Tools eru tvær einfaldar leiðir í boði til þess að athuga hvort síðan þín er snjalltækjavæn.

1. Farðu á Google í símanum og leitaðu að vefsíðunni þinni. Vefsíður sem eru snjalltækjavænar eru merktar „mobile friendly“ (mynd 2).

2. Farðu inn á Mobile Friendly Test síðu Google og sláðu inn vefslóð vefsíðunnar þinnar. Google dregur þá upp snjalltækjamynd af síðunni þinni og segir til um hvort hún er snjallsímavæn eður ei (mynd 3).

Það er ljóst að í vefsíðugerð í dag ætti snjalltækjavæðing vefsíðunnar að vera staðalbúnaður.

Nú þegar Google hefur talað þá ættu allir að hlusta. Form, virkni og útlit vefsíðunnar á snjalltækjum skiptir máli fyrir upplifun notenda og þann 21. apríl skipta þessir þættir enn meira máli í leitarvélabestun en áður.

Er þín vefsíða tilbúin? Skoðaðu verkin okkar og hafðu samband ef þú hefur áhuga á að vita meira um hvað Hype Markaðsstofa getur gert fyrir þig.